Vorráðstefna JFÍ 8. mars 2024

Elsa G. Vilmundardóttir, jarðfræðingur, lést miðvikudaginn 23. apríl síðastliðinn 75 ára að aldri. Elsa var einn af frumkvöðlum íslenskra jarðfræðinga og hún varð fyrst íslenskra kvenna til að ljúka prófi í jarðfræði, en það gerði hún árið 1963 frá Háskólanum í Stokkhólmi. Elsa vann ötullega við jarðfræðikortlagningu, frá upphafi og fram á dánardægur, og eftir hana liggur mikið verk kortlagningar á Þjórsár- og Tungnaársvæði. Með brennandi áhuga sínum, eldmóði og alúð, var Elsa fyrirmynd komandi kynslóða jarðfræðinga. Ungum jarðvísindamönnum, sem voru að taka sín fyrstu skref í faginu, tók hún með vinsemd og hjálpsemi, og einlægur áhugi hennar á faginu smitaði út frá sér. Þannig var hún verðug fyrirmynd íslenskra kvenna sem síðar hafa sótt sér menntun í jarðvísindum.

Elsa var einn af 13 stofnendum Jarðfræðafélags Íslands, árið 1966, og var formaður félagsins á árunum 1986-1990. Í formannstíð hennar voru stofnaðar tvær nefndir til að gera grein fyrir jarðfræðikortlagningu og jarðfræðastarfsemi á Íslandi. Var þeim ætlað að vera stjórn félagsins til ráðgjafar um þessi mál og fleiri sem til myndu falla. Elsa var formaður nefndarinnar sem gerði grein fyrir jarðfræðikortlagningunni og var nefndarvinnan henni mikið hjartans mál. Nefndirnar skiluðu greinargerðum, sem voru afhentar félagsmönnum og viðeigandi ráðuneytum, þar sem upplýst var um þáverandi fyrirkomulag starfseminnar og gerðar tillögur að framtíðarfyrirkomulagi. Á stjórnartímabili Elsu var Vorráðstefna Jarðfræðafélagsins fest í sessi, en síðan 1985 hefur Vorráðstefnan verið árlegur viðburður og jafnan gefið út ráðstefnuhefti með ágripum erinda.

Jarðfræðafélag Íslands kveður Elsu G. Vilmundardóttur með viðingu og þakklæti, fyrir óeigingjarnt og metnaðarfullt uppbyggingarstarf í þágu félagsins. Félagið er stolt af því að hafa haft slíkan einstakling í sínum röðum, sem var fyrirmynd í lífi og starfi.

Fyrir hönd Jarðfræðafélags Íslands
Kristín S. Vogfjörð og Eydís Salome Eiríksdóttir