Ágætu félagar í Jarðfræðafélagi Íslands,
eins og áður hefur verið kynnt mun Surtseyjarfélagið ásamt fleiri aðilum standa að 50 ára afmælis- og vísindaráðstefnu Surtseyjar í Reykjavík dagana 12. – 15. ágúst 2013. Um verður að ræða opna, alþjóðlega ráðstefnu. Undirbúningur er vel á veg kominn og hefur 2. kynningarbréf (2nd Circular) verið sent út. Opnað var fyrir skráningu á ráðstefnuna þann 15. febrúar og mun forskráning á afsláttargjaldi standa til 1. apríl. Síðustu forvöð til að senda inn útdrátt (Abstract) er 1. maí. Allar upplýsingar um ráðstefnuna má nálgast í gegnum heimasíðu Surtseyjarfélagsins (http://www.surtsey.is) og í 2. kynningarbréfi (sjá viðhengi).

Til ráðstefnunnar hefur verið boðið nokkrum þekktum erlendum fræðimönnum sem flytja munu þar erindi. Þar á meðal eru Nemesio Perez sem fjalla mun um neðansjávargosið við Kanaríeyjar í fyrra, Robert Whittaker, prófessor í eyjalandafræði við Oxford háskóla, Tim New, skordýrafræðingur og prófessor emeritus við LaTrobe háskóla í Ástralíu en hann hefur m.a. rannsakað framvindu á Krakatau-eyjunum í Indónesíu og Stephen C. Jewett, sjávarlíffræðingur við Alaska-háskóla í Anchorage, en hann hefur tekið þátt í rannsóknum á framvindu á Kasatochi-eyju í Aleutin eyjaklasanum eftir eldgosið þar árið 2008.

Þótt aðalefni ráðstefnunnar verði umfjöllun um eldfjallaeyjar þá verður sjónarhornið víðara og rúm fyrir rannsóknir er tengjast m.a. einangrun, þróun, landnámi og framvindu á landi, í hafi og vötnum. Við viljum eindregið hvetja ykkur til þátttöku í ráðstefnunni og að kynna þar rannsóknir ykkar í erindum eða á veggspjöldum. Í kjölfar ráðstefnunnar verða gefin út sérhefti með greinum frá henni. Boðið verður upp á að birta greinar í ritinu BioGeoSciences og Surtsey Research (sjá nánar í 2nd Circular).

Hér gefst tækifæri til að koma á framfæri niðurstöðum jarðfræðirannsókna á Íslandi sem tengjast viðfangsefni ráðstefnunnar, s.s eldvirkni í sjó og vatni, stapar og tindar, myndun móbergs, strandrof, setmyndun, jarðskorpuhreyfingar og farg, og margt, margt fleira.

Okkur þætti vænt um ef þið létuð fréttir um ráðstefnuna berast til þeirra er áhuga kunna að hafa á þátttöku.

Með bestu kv.

f.h. undirbúningsnefndar

Borgþór Magnússon, Páll Einarsson