Sælir kæru félagar

Nú fer að líða að vorráðstefnu félagsins, þann 22. mars næstkomandi. Beðist er velvirðingar á því hversu seint auglýsing berst ykkur en vegna óviðráðanlegra orsaka var ekki hægt að senda þetta út fyrr. Eins og þið sjáið þá er skilafrestur ágripa föstudagurinn 15. mars og eruð þið vinsamlega beðin um að skila inn á réttum tíma. Með von um að sjá ykkur sem allra flest.

                   

 

Vorráðstefna Jarðfræðafélags Íslands

22. mars 2013

í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands

 

1) Árleg vorráðstefna Jarðfræðafélags Íslands verður haldin föstudaginn 22. mars 2013 í Öskju, Náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands.

2) Um er að ræða heilsdagsráðstefnu, frá kl 09:00 til 17:00, en skráning verður frá klukkan 8:30. Auglýst er eftir ágripum erinda og veggspjalda og tilkynningu um þátttöku. Aðeins verður tekið við ágripum frá þeim sem eru þátttakendur á ráðstefnunni og eru skil ágrips tekin sem skráning á ráðstefnuna.

3) Lokadagur til að skila inn ágripi er 15. mars. Tekið skal fram hvort höfundar óska eftir erindi eða veggspjaldi. Ágrip sendist til Þorsteins Sæmundssonar, steini@nnv.is en skráning til Lúðvíks E. Gústafssonar, ludvik.e.gustafsson@samband.is  Við skráningu þarf að koma fram nafn, heimilisfang, kennitala, greiðandi og hvort viðkomandi er félagsmaður í Jarðfræðafélaginu. Þess er eindregið óskað að ágrip og skráning berist sem fyrst til að minnka vinnuálag á skipuleggjendur ráðstefnunnar.

4) Þátttökugjald er 10.000 kr. fyrir félagsmenn, 13.000 kr. fyrir utanfélagsmenn en stúdentar við HÍ, sem hvattir eru til að mæta, þurfa ekki að greiða fyrir ráðstefnuna. Áréttuð er samþykkt aðalfundar sem heimilar þeim félögum sem eru komnir á eftirlaun að taka þátt í ráðstefnunni án endurgjalds, en þeir greiði fyrir annað sem tengist ráðstefnunni. Þeim er þó að sjálfsögðu boðið upp á kaffi í hléum. Hádegisverður er innifalinn í ráðstefnugjaldi og eru þátttakendur beðnir um að taka fram við skráningu hvort þeir verði í mat.

5) Gert er ráð fyrir að flutningur hvers erindis og spurningar að því loknu taki 15 mín. Tímasetningar erinda eru með þeim fyrirvara að dagskráin breytist ekki. Ágripum erinda og veggspjalda skal skila í Word eins og sýnt er hér. Ágripin verða í stærðinni A4 og er miðað við að þau verði ekki lengri en 2 síður með myndum. Athugið að texti ágripa er ekki prófarkalesinn. Augljósar villur eru leiðréttar við uppsetningu og frágang en að öðru leyti er texti ágripanna og framsetning hans á ábyrgð höfunda. Ágrip verði á íslensku séu höfundar íslenskir, en erlendir gestir geta skilað ágripum á ensku. Tungumál ráðstefnunnar er íslenska, en heimilt verður að flytja erindi á ensku. Veggspjöld verða fest á einingar sem eru 1 m á breidd og 2,5 m á hæð og miðað er við að þau verði komin upp í Öskju, Náttúrufræðahúsi kl. 08:45 og verði tekin niður kl. 19:00.