Sælir félagar í JFÍ
Haukur Jóhannesson jarðfræðingur hjá ÍSOR heldur fræðsluerindi í Víðgelmi, Grensásvegi 9, 17. desember kl. 13.00 undir yfirskriftinni: Nýja Ísland – Ný sýn á jarðfræði Íslands
Fyrirlesturinn fjallar um sögu gosbeltaflutninga á Íslandi og þar eru settar fram hugmyndir um að gosbeltaflutningar hafi verið fimm eða sex á síðustu 16 milljónum ára en ekki tveir eins og talið hefur verið. Hvert gosbelti er virkt í tiltölulega skamman tíma, 2–4 milljónir ára, en færir sig svo um set. Samhverfur sem fylgja slíkum gosbeltum eru flestar grafnar undir yngri jarðmyndunum frá yngri gosbeltum og á því er aðeins ein undantekning en það er hið forna Snæfellsnesgosbelti. Farið er yfir jarðsögu Ísland í nýju ljósi og uppbyggingu landsins. Sprungukerfi eru flóknari en talið var, einkum á vesturflekanum, og augljóst að mörg þeirra eru enn virk. Flest þessara sprungukerfa eru leifar gamalla sniðgengiskerfa sem fylgdu fyrri gosbeltaflutningum. Yfirborðsjarðhitinn fylgir sprungu-kerfunum eins og skugginn sem gefur til kynna að kerfin séu enn virk. Þar liggur líklega skýringin á því að mikill jarðhiti er á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi en lítill á Austurlandi. Í þessari úttekt er fundin skýring á meiri háttar rofmislægjum og setlagabunkum sem lengi hafa valdið mönnum heilabrotum. Einnig bendir ýmislegt í efnafræði heits vatns til að kvika sé tiltölulega grunnt undir Vestfjörðum. Þegar litið er á sprungukerfin vaknar grunur um að huga þurfi að skjálftahættu á vestanverðu landinu í þessu nýja ljósi.
Allir velkomnir.