Siðareglur

Codex Ethicus
Jarðfræðafélag Íslands

INNGANGUR

Jarðvísindi er samheiti yfir þær fræðigreinar sem fást við samsetningu, uppbyggingu, þróun, sögu og auðlindir jarðar. Ennfremur fjalla jarðvísindi um hagnýtingu þeirrar þekkingar sem fræðigreinin býr yfir. Forsendur fyrir faglegri hæfni og starfsréttindum jarðvísindamanns eru að viðkomandi hafi nauðsynlega menntun eða faglega reynslu sem viðurkennd er af lögaðilum í viðkomandi landi. Sérhver slíkur aðili, hér nefndur jarðvísindamaður, er ábyrgur fyrir því áliti sem hann skapar sér og félögum sínum hjá almenningi og viðskiptavinum.
Allir félagar í Jarðfræðafélagi Íslands (JFÍ) samþykkja að starfa samkvæmt þeim siðareglum sem hér eru kynntar og taka tillit til þess anda sem fram kemur í þeim. Siðareglur eru settar til að lýsa og skerpa á samskiptareglum innbyrðis milli félaga sem og við vinnuveitendur og viðskiptavini. Þær miða einnig að því að félagar í JFÍ, viljandi eða vísvitandi, skaði ekki ímynd jarðvísindanna sem vísindagreinar heldur hagnýti sér kunnáttu sína til að skapa þjóðfélaginu aukið öryggi og tryggja vandaða meðferð á gæðum náttúrunnar. Það er skylda allra félaga JFÍ að fylgja siðareglum félagsins, kynna þær nýjum félögum JFÍ og leita álits annarra félaga vegna vafaatriða við túlkun þeirra.
Reglur þessar ná til allra jarðfræðistarfa hvar sem þau eru unnin af félagsmönnum. Ef siðareglur eru til í landi eða á svæði þar sem félagi í JFÍ starfar skal hann fara eftir þeim reglum sem þar gilda, en þó aðeins ef þær siðareglur eru jafn víðtækar og kröfur eru ekki minni en í siðareglum JFÍ.

1 ALMENN GRUNDVALLARATRIÐI – FAGLEG VINNUBRÖGÐ.

1.1 Heiðarleiki er grunnur allra eðlilegra samskipta á milli manna og því þarf starf sérhvers félaga JFÍ að grundvallast á heiðarleika. Siðareglur miða að því að skýra og skilgreina hvar og hvernig það hugtak á við í starfi, í samskiptum félaga og gagnvart almenningi. Félagi vinnur af vísindalegri samviskusemi og hefur í heiðri fagleg vinnubrögð þannig að rannsóknir hans standist ströngustu kröfur um fagmennsku. Hann rökstyður mál sitt og forðast illa grundaðar og órök studdar fullyrðingar.

1.2 Jarðvísindamenn skulu í starfi sínu leggja áherslu á að hafa það sem sannara reynist, óháð hagsmunatengslum við opinberar stofnanir, samtök, fyrirtæki og einstaklinga, þar á meðal aðra félaga JFÍ. Heiðarleg vinnubrögð er hafa sannleikann að leiðarljósi munu ætíð þjóna samfélaginu, vísindunum og faginu best.

1.3 Félagi tekur hvorki að sér verkefni sem sérfræðingur á öðru fagsviði en sínu, né tekst hann á herðar skuldbindingar sem hann hefur ekki hæfni til að fullnægja þótt um sé að ræða fasta viðskiptavini eða að hann hafi áður gefið ráð til viðkomandi viðskiptavinar.

1.4 Jarðvísindamenn skulu í ritum sínum ætíð vísa til heimilda eftir því sem við á, þannig að lesandi geti á auðveldan hátt sannreynt heimildina. Þá skal vísa í eins upprunalega heimild og unnt er.

1.5 Jarðfræðingur á að vera gagnrýninn, jafnt á eigin niðurstöður sem annarra, og á ekki að samþykkja niðurstöður annarra fræðimanna af orðspori þeirra einu saman né á hann að samsinna viðteknum skoðunum af gömlum vana. Hann á ávallt að vera reiðubúinn að skipta um skoðun á einstökum málum ef ástæða er til.
Það eru m.a óvönduð og óvísindaleg vinnubrögð ef jarðvísindamaður vísvitandi:

  • Býr umyrða- og fyrirvaralaust til upplýsingar sem engar heimildir eru fyrir.
  • Falsar heimildir og dagsetningar.
  • Notar með ólögmætum eða óviðteknum hætti ritverk, hugmyndir eða kenningar annarra.
  • Velur úr heimildum aðeins það sem hentar niðurstöðum hans en sleppir að geta þess sem mælir á móti .
  • Misnotar tölulegar upplýsingar til stuðnings niðurstöðum sínum
  • Gætir ekki fyllstu sanngirni gagnvart skoðunum annarra.
  • Getur ekki framlags samverkamanna sinna, aðstoðarmanna, nemenda og annarra sem hafa komið að verkinu.

2 SKYLDUR VIÐ ALMENNING

2.1 Ábyrgð félaga gagnvart almenningi í málum sem varða heilbrigði, fjárhagslega afkomu og öryggi, er hafin yfir hagsmuni einstaklinga eða viðskiptavina. Sé ekki tekið tillit til skoðana félaga að þessu leyti á hann að upplýsa viðskiptavin eða vinnuveitanda og hugsanlega opinbera aðila um stöðu mála.

2.2 Félagi skal alltaf forðast yfirborðslegar, órökstuddar og ýktar yfirlýsingar og ekki ljá slíkum málflutningi stuðning sinn, einkum þegar um er að ræða atriði sem tengjast faglegri ábyrgð og stangast á við faglegt mat. Komi fram vafasamar yfirlýsingar eða fullyrðingar er félaga skylt að gera athugasemdir, leiðrétta þær og benda á aðrar leiðir eða rannsóknir sem geta aukið öryggi framkvæmdar. Verði jarðvísindamaður var við að ráðgjöf sem hann hefur veitt sé ekki fylgt, á hann að upplýsa viðkomandi aðila um það, hvort sem það samræmist hag hans eða ekki og benda á hættu eða tjón sem gæti hlotist af því að fylgja ekki gefinni ráðgjöf.

2.3 Félagi heimilar hvorki notkun né birtingu á efni og niðurstöðum sínum í skýrslum eða á kortum ef um er að ræða ólöglega eða vafasama notkun.

2.4 Félagi lætur ekki í ljós faglega skoðun, skrifar ekki skýrslu eða ber vitni, án þess að hafa að hans mati fullnægjandi upplýsingar sem varða viðkomandi mál og að skýrt komi fram á hvaða gögnum hann byggir mál sitt.
2.5 Félagi skal hvorki gefa rangar yfirlýsingar né rangar upplýsingar þótt hann sé beittur þrýstingi af vinnuveitanda eða viðskiptavini.

2.6 Félagi skal gæta hófs við kynningu á sjálfum sér og þeirri vinnu eða rannsóknum sem hann hefur unnið. Hann forðast sjálfhól, ýkjur og yfirborðsmennsku og hreykir sér ekki upp yfir aðra.

2.7 Félagi hefur ekki í flimtingum né gefur í skyn hvað felst í trúnaðarupplýsingum sem honum hefur verið trúað fyrir eða hann sér eða verður áskynja um án þess að honum hafi verið ætlað að vita af þeim.

3 ÁBYRGÐ GAGNVART VINNUVEITANDA OG VIÐSKIPTAVINUM

3.1 Félagi skal gæta hagsmuna vinnuveitanda og viðskiptavina eftir því sem unnt er og svo fremi að það stangist ekki á við hagsmuni almennings, lög, faglegar skyldur og siðareglur JFÍ.

3.2 Telji félagi JFÍ að skuldbindingar hans gagnvart vinnuveitanda eða viðskiptavini stangist á við faglegar skyldur og siðfræði skal hann fá slíkum skuldbindingum breytt eða falla frá því verkefni sem um ræðir.

3.3 Félagi skal gefa væntanlegum vinnuveitanda eða viðskiptavini allar upplýsingar er varða eigin hagsmuni sem gætu tengst fyrirliggjandi verkefni eða starfi.

3.4 Félagi notar hvorki beint né óbeint trúnaðarupplýsingar, einkaleyfi eða hugmyndir vinnuveitanda eða viðskiptavinar til að bæta samkeppnisaðstöðu sína gagnvart þriðja aðila. Hann notar ekki slíkar upplýsingar á þann hátt að það skaði hagsmuni þess aðila sem veitti upplýsingarnar eða þar sem upplýsingar urðu til.

3.5 Félagi sem tekið hefur að sér ákveðið verkefni fyrir viðskiptavin tekur ekki að sér verkefni fyrir annan án samþykkis þess fyrri ef hagsmunir þeirra kunna að stangast á.

3.6 Félagi skal ekki hagnast á upplýsingum sem hann aflar fyrir vinnuveitanda eða viðskiptavin, nema sérstaklega hafi verið um það samið eða að það skaði ekki hagsmuni vinnuveitanda eða viðskiptavinar né valdi öðrum hagsmunaárekstrum.

3.7 Félagi í JFÍ ráðleggur viðskiptavinum sínum eða vinnuveitanda að leita ráða hjá öðrum sérfræðingum sé hagsmunum þeirra betur sinnt á þann hátt. Auk þess skal hann ætíð upplýsa viðskiptavini sína um þær takmarkanir sem kunna að vera við lausn faglegra mála, einkum ef sjáanlegt er að slíkar lausnir leiði til aukins kostnaðar við að leysa tiltekið verkefni.

3.8 Félagi skal ekki þiggja duldar greiðslur fyrir að benda vinnuveitanda eða viðskiptavini á eða mæla með þjónustu annarra aðila.

3.9 Félagi skal ekki breyta eða neita tilvist staðreynda né tæknilegum eða vísindalegum sannindum þótt slíkt sé viðskiptavini í hag, né leiðir hann almenning á villigötur með álíka framferði.

4 VIÐHORF TIL UMHVERFISINS

4.1 Félagi gerir sér grein fyrir mikilvægi þess að aðferðir hans við að leysa tiltekin verkefni valdi sem minnstum skaða á umhverfinu.

4.2 Félaga er skylt að vanda vinnubrögð sín og slá ekki af faglegum kröfum, einkum þegar slík vinnubrögð geta teflt í tvísýnu efnislegum eða félagslegum gæðum eða valdið umhverfisspjöllum.

4.3 Félagi skal kynna sér og fara eftir lögum um umhverfisvernd og reglugerðir og staðla er varða verndun umhverfisins.

5 GAGNKVÆM ÁBYRÐ FÉLAGA Í JFÍ

5.1 Félagi skaðar hvorki heiður né vinnu annars félaga með ósönnum staðhæfingum eða dylgjum.

5.2 Félagi lætur aðra njóta þess heiðurs og umbunar sem þeir eiga skilið og eignar sér hvorki í ræðu né riti verk eða vinnu annarra. Hann þiggur hvorki heiður né umbun sem ekki er hans með réttu.

5.3 Félagi leitast við að halda góðri samvinnu við aðra félaga og einstaklinga og stuðlar að eðlilegum skoðana- og gagnaskiptum sem verða viðkomandi aðilum til framdráttar.

5.4 Jarðvísindamanni er heimilt að nota við rannsóknir sínar og í ritverkum gögn eða aðra vinnu sem hefur verið unnin undir hans stjórn, svo sem af nemendum eða undirmönnum og skal hann þá ætíð upplýsa þá um slík not og ætíð geta framlags þeirra. Félagar í JFÍ skulu hvorki eigna sér heiður af hugmyndum nemenda sinna eða samstarfsmanna, né nýta sér vinnu þeirra án þess að skýra frá í hverju framlag þeirra er fólgið. Óbirt gögn annarra fræðimanna skal aðeins nota með fullu samþykki og í samræmi við vilja þeirra enda komi skýrt fram hvaðan þau eru fengin.

6 VIÐURLÖG

6.1 Teljist félagi brotlegur við þessar reglur sætir mál hans meðferð samkvæmt ákvæðum í lögum eða samþykktum JFÍ.