Lög félagsins

1. Félagið heitir Jarðfræðafélag Íslands (Erlent heiti Geoscience Society of Iceland).

2. Hlutverk félagsins er að efla íslenskar jarðfræðarannsóknir. Þessu hlutverki hyggst félagið gegna með því að:
a. Stuðla að kynningu íslenskra vísindamanna í hinum ýmsu greinum jarðfræða.
b. Efna til umræðufunda, er haldnir skulu a.m.k tvisvar á ári.
c. Stuðla að skipulagningu og samræmingu jarðfræðarannsókna á Íslandi.
d. Vera aðili að alþjóðasamtökum og alþjóðasamvinnu á sviðum þessara fræða.

3. a. Félagsmenn geta orðið allir vísindamenn á sviði jarðfræði, jarðefnafræði og jarðeðlisfræði, svo og vísindamenn í skyldum fræðigreinum, sem vinna að rannsóknum á ofangreindum sviðum. b. Stofnanir sem starfa á sviði jarðvísinda geta einnig fengið aðild að félaginu. Tilgangurinn með slíkri aðild er að efla samstarf á öllum sviðum jarðvísinda sem og tengsl milli félagsmanna og stofnana.

4. Stjórn félagsins skipa sjö menn. Hver stjórnarmaður er kosinn til tveggja ára í senn. Formaður er kosinn sérstaklega, en stjórnin skiptir sjálf með sér verkum að öðru leyti. Annað árið ganga úr stjórninni formaður og þrír aðrir stjórnarmenn, en hitt árið þrír stjórnarmenn.

5. Aðalfund skal halda að vori ár hvert, en þó ekki síðar en í lok júní og dagskrá hans skal vera sem hér segir:
a. Skýrt frá helstu framkvæmdum á liðna árinu.
b. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins
c. Kosin stjórn með skriflegri kosningu. Ennfremur skulu kosnir tveir endurskoðendur reikninganna og einn varaendurskoðandi.
d. Inntaka nýrra félaga.
e. Önnur mál.

Aðalfund skal boða skriflega og er hann lögmætur ef löglega er til hans boðað. Á fundinum ræður einfaldur meirihluti atkvæða úrslitum nema annað sé til tekið í félagslögum.

6. Lagabreytingar geta aðeins orðið á aðalfundi. Tillögur til lagabreytinga skulu tilkynntar í fundarboði og til þess að þær öðlist gildi þurfa þær að vera samþykktar með minnst 2/3 greiddra atkvæða.

7. Tillögur eða beiðnir um upptöku nýrra félaga skulu sendar stjórninni, sem ber þær upp á aðalfundi.

8. Árgjald einstaklinga og stofnana skal ákveðið á aðalfundi.

Atkvæðisbærir á aðalfundi eru þeir einir, sem greitt hafa árgjöld sín.

Hver stofnun getur tilnefnt fulltrúa sem fer með atkvæði hennar. Fulltrúi stofnunar hefur ekki kjörgengi til setu í stjórn nema hann sé félagi í Jarðfræðafélagi Íslands.